Vincent Kompany stjóri Burnley er maðurinn sem fólkið í Belgíu vill fá til að taka við landsliðinu nú þegar starfið þar er laust.
Roberto Martinez lét af störfum eftir að Belgía datt út í riðlakeppni Heimsmeistaramótsins í Katar.
Kompany hefur unnið frábært starf hjá Burnley síðustu mánuði, liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor en er nú á toppi næst efstu deildar.
Kompany hefur breytt leikstíl Burnley mikið og spilar liðið nú afar skemmtilegan fótbolta. Kompany átti frábæran feril með Manchester City og belgíska landsliðinu.
Kompany þjálfaði í Belgíu áður en hann tók við Burnley en hann er sagður á lista belgíska sambandsins og er efstur á óskalista stuðningsmanna samkvæmt könnunum.
Jóhann Berg Guðmundsson er leikmaður Burnley en nú gæti svo farið að hann fái nýjan stjóra.