Japan og Króatía mættust í fyrri leik dagsins í 16-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í Katar.
Fyrri hálfleikur var lengi vel markalaus en Japanir ógnuðu meira fram á við. Þeir komust nokkuð verðskuldað yfir á 43. mínútu þegar Daizen Maeda kom boltanum í markið eftir hornspyrnu.
Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik jafnaði Ivan Perisic hins vegar fyrir Króata með flottu skallamarki.
Það gerðist ekki mikið meira markvert í venjulegum leiktíma þó Króatar hafi gert sig aðeins líklegri. Staðan eftir hann var 1-1 og gripið til framlengingar.
Þar var ekkert skorað og því þurfti vítaspyrnukeppni til að skera úr um hvort liðið færi áfram.
Dominik Livakovic varði þar þrjár vítaspyrnur fyrir Króata og fara þeir áfram í 8-liða úrslit.
Liðið fer áfram í 8-liða úrslit. Þar verður andstæðingurinn annað hvort Brasilía eða Suður-Kórea. Þau mætast í kvöld klukkan 19.