Áhorfandi hljóp inn á völlinn í leik Úrúgvæ og Portúgals á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær.
Maðurinn sem um ræðir heitir Mario Ferri og hljóp hann inn á völlinn klæddur í bol þar sem stóð „Björgum Úkraínu.“
Þá mótmælti hann einnig framkomu í garð hinsegin fólks í Katar og ástandinu í Íran.
Flestir bjuggust við að Ferri yrði harkalega refsað af Katörum en hann staðfesti í dag að hann væri laus allra mála eftir að hafa verið handsamaður á vellinum í gær.
Þetta var til umræðu í HM-hlaðvarpi íþróttadeildar Torgs (Fréttablaðsins og DV) í dag.
„Hann var grjótharður og mótmælti eiginlega öllu,“ segir Helgi Fannar Sigurðsson í þættinum.
„Það vantaði bara að hann mótmælti verðbólgu á Íslandi til að ná öllum katalógnum,“ segir Hörður Snævar Jónsson.
Helgi tók aftur til máls. „Þurfum við ekki svona uppreisnarseggi inn á milli? Menn sem taka svona á sig.“
Portúgal vann leikinn í gær 2-0 með mörkum frá Bruno Fernandes. Liðið er komið áfram í 16-liða úrslit.
Umræðan í heild er hér að neðan.