Sir Alex Ferguson var ekki allra en hann er af mörgum talinn besti knattspyrnustjóri sögunnar og náði ótrúlegum árangri með Manchester United.
Sumir fyrrum leikmenn Man Utd náðu þó ekki vel saman við Ferguson og má nefna David Beckham, Roy Keane og Jaap Stam.
Lee Sharpe, fyrrum leikmaður Man Utd og Grindavíkur, gagnrýndi Ferguson í ævisögu sinni sem kom út fyrir um 12 árum síðan.
Sharpe kallaði Ferguson hrekkjusvín í þessari bók en hann lék með enska stórliðinu frá 1988 til 1996 áður en hann samdi við Leeds.
Sharpe þekkir vel til Íslands en hann lék með Grindavík árið 2003 stuttu áður en að skórnir fóru á hilluna.
Sharpe viðurkennir að samband hans við Ferguson sé brotið í dag en þeir hafa séð hvor annan nokkrum sinnum eftir að Sharpe ákvað að segja skilið við íþróttina.
,,Ég hitti hann fyrir nokkrum árum hjá Man Utd í golfi og hann vildi ekki horfa á mig en heilsaði mér á lítinn hátt er hann gekk framhjá,“ sagði Sharpe.
,,Fyrir það þá hundsaði hann mig algjörlega. Eftir að ég yfirgaf félagið þá sagði hann við mig að ég hafi aldrei verið til vandræða og að ef ég þyrfti eitthvað þá væru þeir til staðar.“
,,Augljóslega eftir að ég hætti skirfaði ég bókina og sagði hann vera hrekkjusvín, ég heyrði að hann hefði breytt um skoðun á mér eftir það.“