Gabriel Jesus samdi við Arsenal í sumar en hann gekk í raðir félagsins frá Manchester City og hefur byrjað vel í London.
Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir að mörg félög hafi reynt við Jesus í sumar og var hann með þónokkra möguleika.
Jesus gat til að mynda gengið í raðir Paris Saint-Germain í Frakklandi en um er að ræða eitt ríkasta félag heims.
Brasilíumaðurinn ákvað þó að lokum að semja við Arsenal og virðist þar með ekki hafa elt peningana.
,,Síðan í mars eða apríl þá voru mörg lið sem höfðu samband við Gabriel Jesus,“ sagði Romano við Que Golazo.
,,Ég get nefnt Tottenham, ég get nefnt Chelsea. Mörg félög hringdu í umboðsmann og vildu athuga stöðuna. Einnig Paris Saint-Germain, þeir höfðu áhuga á Jesus og horfðu á hann sem möguleika. Það voru margar viðræður sem áttu sér stað en Arsenal taldi sig alltaf vera í bílstjórasætinu.“