Herði Magnússyni, íþróttalýsanda á Viaplay, leist ekki á blikuna undir lok leiks íslenska karlalandsliðsins gegn Albaníu í kvöld.
Leiknum lauk 1-1, þar sem Mikael Neville Anderson jafnaði fyrir Ísland í blálokin.
Lærisveinar Arnars Þórs Viðarssonar sýndu mikinn karakter með því að koma til baka. Liðið var manni færra frá 11. mínútu, þegar fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fékk rautt spjald.
Eftir að Hörður lýsti sigurmarki íslenska liðsins, og fagnaði eðlilega, sagðist hann hafa fengið slæmt augnaráð frá Albönum í stúkunni.
„Ég fæ slæmt augnaráð, þetta er mjög óþægilegt. Ég fæ vonandi öryggisgæslu,“ sagði hann í beinni útsendingu á Viaplay.
Kjartan Henry Finnbogason lýsti leiknum með honum. „Ég passa þig,“ sagði hann léttur.
Stuðningsmenn Albaníu eru margir hverjir blóðheitir, eins og sjá mátti þegar þeir bauluðu á og húðskömmuðu lið sitt eftir jafnteflið í kvöld.
Vilhjálmur Freyr Hallsson sló á létta strengi í setti Viaplay hér heima.
„Vonandi kemst Hörður heill heim. Annars sendum við íslenska Van Damme, Rúrik Gíslason, út að sækja hann,“ sagði hann, en Rúrik lenti í honum kröppum í Mílanó á dögunum. Þá réðist vopnaður maður að honum og heimtaði úr hans. Rúrik tókst hins vegar að losna við manninn.
„Hann krafðist þess að fá úrið og reyndi að ráðast á mig en ég náði að sjá um það. Farið í ræktina strákar,“ sagði Rúrik á Instagram á dögunum.