Mikel Arteta, stjóri Arsenal, er vongóður um að Thomas Partey, miðjumaður liðsins, verði klár í stórleikinn gegn Tottenham á laugardag.
Hinn 29 ára gamli Partey yfirgaf landsliðshóp Gana í landsleikjahléinu sem nú stendur yfir vegna smávægilegra meiðsla. Hann sneri aftur til Lundúna, á æfingasvæði Arsenal.
Partey gekk í raðir Arsenal frá Atletico Madrid árið 2020. Hann hefur síðan verið mikið meiddur.
Ganverjinn hefur þó staðið sig afar vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað. Arsenal leggur því allt kapp á að hann verði klár í erkifjendaslaginn gegn Tottenham.
Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með átján stig, stigi á undan Manchester City og Tottenham þegar liðin hafa leikið sjö leiki hvort.