Virgil van Dijk, leikmaður Liverpool, hefur gríðarlega trú á landa sínum Jurrien Timber sem spilar með Ajax í Hollandi.
Timber var orðaður við Manchester United í sumar en hann er 21 árs gamall og þykir mjög efnilegur.
Van Dijk var sjálfur lengi að komast á topp ferilsins en hann spilaði með Celtic og Southampton áður en símtalið frá Liverpool barst.
Van Dijk segir að Timber sé mun betri á sama aldri og hann var á sínum tíma en þeir eru í dag liðsfélagar í hollenska landsliðinu.
,Ég var ekki kominn næstum því eins langt á sama aldri,“ sagði Van Dijk í samtali við blaðamenn.
,,Ég get ekki gert annað en að hrósa honum, hann er frábær leikmaður og alvöru atvinnumaður.“
,,Hann er með svo mikla hæfileika og getur náð enn lengra. Þetta mun allt ganga upp.“