Nú virðist stefna í það að Kylian Mbappe, leikmaður Paris Saint-Germain, muni skrifa undir nýjan samning. Íþróttablaðamaðurinn Gianluca Di Marzio segir engan vafa liggja þar á.
Þar til í gær var útlit fyrir að Mbappe færi til Real Madrid. Þá bauð PSG honum rosalegan samning.
Samkvæmt fréttum bauð félagið Mbappe að þéna 4 milljónir punda á mánuði og að auki fær hann 100 milljónir punda fyrir að skrifa undir nýjan samning.
661 milljón í mánaðarlaun gerir Mbappe að launahæsta íþrottamanni í heimi og 16 milljarðar fyrir það eitt að skrifa undir nýjan samning.
Að auki kemur fram í fréttum að PSG hafi boðið Mbappe að stjórna í raun öllu sem skiptir máli hjá félaginu.
Þar segir að Mbappe fái að ráða hvort þjálfari verði rekinn eða ekki og hvaða leikmenn félagið kaupir eða selur. Hann fái að vera með í ráðum um allt sem skiptir máli.
Florentino Perez, forseti Real Madrid, er þá sagður hafa tilkynnt leikmönnum félagsins að Mbappe sé ekki á leiðinni.