Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, lét Dimitar Berbatov og Patrice Evra, fyrrum leikmenn Manchester United, heyra það eftir að tvíeykið sagði enga persónuleika í liði City eftir að liðið féll úr leik í Meistaradeildinni.
City glutraði frá sér tveggja marka forystu á lokamínútunum gegn Real Madrid í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Bernabéu vellinum þann 4. maí síðastliðinn.
Evra sagði City skorta leiðtoga og Berbatov sagði að City hefði spilað eins „lítil lið með ekkert sigurhugarfar.“
Man City hefur skorað 10 mörk í tveimur leikjum gegn Newcastle og Wolves síðan liðið féll úr leik í Meistaradeildinni og leiða kapphlaupið um enska meistaratitilinn þegar tvær umferðir eru eftir City er þremur stigum á undan Liverpool.
„Þetta er sami karakter og persónuleiki og tapaði á síðustu tveimur, þremur mínútunum í Madríd,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær þegar hann var spurður út í hugarfar leikmanna sinna.
„Ég sá ekki þennan persónuleika hjá sérfræðingum og fyrrum leikmönnum eins og Berbatov og Evra og Seedorf þegar ég, og við [Barcelona] rústuðum þeim í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn United,“ sagði Guardiola og var augljóslega heitt í hamsi.
Guardiola leiddi Barcelona til sigurs í Meistaradeildinni gegn Man United í úrslitum árið 2009 ogaftur árið 2011 þegar Patrice Evra og Dimitar Berbatov voru á mála hjá síðarnefnda liðinu.