Það er nokkuð ljóst að Paul Pogba mun yfirgefa Manchester United í sumar þegar samningur hans rennur út. Nú segir Goal frá því að erkifjendurnir í Manchester City íhugi að fá leikmanninn til sín á frjálsri sölu.
Hinn 29 ára gamli Pogba kom til Man Utd frá Juventus árið 2016 fyrir tæpar 90 milljónir punda. Frakkanum hefur ekki tekist að heilla stuðningsmenn félagsins þrátt fyrir að eiga fína spretti inn á milli.
Pogba er meiddur sem stendur og hefur líklega leikið sinn síðasta leik fyrir Man Utd.
Hann hefur verið orðaður við sitt gamla félag Juventus, ásamt Paris Saint-Germain í heimalandinu.
Það er ljóst að það yrði ansi óvænt ef Pogba tæki skrefið yfir til Man City. Pep Guardiola, stjóri liðsins, er sagður vilja styrkja miðjuna hjá sér.