KR tók á móti KA í Bestu deild karla í dag.
Heimamenn voru líklegri aðilinn í fyrri hálfleik. Þá fékk Oleksii Bykov í liði KA rautt spjald á 36. mínútu fyrir að slá til Kjartans Henry Finnbogasonar. Markalaust var þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var pirraður á hliðarlínunni í kvöld og uppskar hann rautt spjald á 48. mínútu. Tíu leikmönnum KA tókst að loka vel á KR-inga í seinni hálfleik og sækja virkilega sterkt stig manni færri.
„Ég sá þetta ekki. Það er erfitt að segja vitandi hverjir eiga í hlut. Allavega fullyrðir strákurinn að hann hafi ekki gert neitt,“ sagði Arnar við Stöð 2 Sport um rauða spjald Bykov. „Þetta er gríðarlega svekkjandi. Það er alltaf slæmt að missa mann í bann.“
Sem fyrr segir fékk Arnar sjálfur að líta rauða spjaldið í leiknum. „Maður á að vera þroskaðri en þetta. Ég lét þetta fara í skapið á mér og sagði einhverja hluti. Maður var ekki dónalegur en sagði hluti sem ég á ekki að segja. “