Tveir leikmenn hafa verið teknir úr íslenska landsliðinu. Þetta staðfesti Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, í samtali við Vísir í dag.
Þetta kemur í kjölfarið af yfirlýsingu stjórnar KSÍ í dag, þar segir að þolendum ofbeldis verði trúað. Arnar Þór Viðarsson þjálfari liðsins mun greina frá um hvaða leikmenn er að ræða.
Íslenska landsliðið er á leið í þrjá heimaleiki, sá fyrsti er á fimmtudag gegn Rúmeníu í undakeppni HM.
Gísli sagði við Vísir að búið væri að tilkynna leikmönnunum tveimur að þeir yrðu ekki með gegn Rúmeníu eða í þessu verkefni.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í dag. Stjórn KSÍ hefur fundað alla helgina. Guðni hefur fengið að finna fyrir því á samfélagsmiðlum eftir að Þórhildur Gyða Arnardóttir steig fram í fréttum RÚV á föstudag og greindi frá því að árið 2017 hafi þekktur landsliðsmaður áreitt hana kynferðislega og ráðist svo á hana, og sagði að Guðna og KSÍ hafi verið vel kunnugt um málið.
Fréttastofa RÚV ræddi aftur við Guðna vegna málsins í ljósi frásagnar Þórhildar og spurði hvernig stæði á því að hann hafi á fimmtudag sagt að engin tilkynning hafi borist sambandinu um kynferðisbrot landsliðsmanna. Umræddur landsliðsmaður greiddi Þórhildi bætur vegna málsins. Guðni hafð ítrekað fullyrt að engar ábendingar um svona hegðun landsliðsmanna hefðu komið á borð KSÍ undir hans stjórn.