Það vakti athygli þegar Helena Ólafsdóttir sagði upp störfum sem þjálfari kvennaliðs Fjölnis í meistaraflokki í vikunni, 108 félög eru skráð til leiks í sumar og ekki ein kona stýrir skútunni.
Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu bendir á þessa staðreynd í pistli sínum í dag. Ekki ein kona er þjálfari í þessum 108 félögum, 29 félög senda lið til leiks í kvennaflokki en karlar ráða för þar.
„Alls eru 108 félög skráð til leiks á Íslandsmótinu í knattspyrnu í sumar. Í meistaraflokki karla eru 79 félög skráð til leiks en 29 í meistaraflokki kvenna. Helena var eini kvenkyns þjálfarinn fyrir viku en það var vefmiðillinn fótbolti.net sem vakti fyrst athygli á þessu í febrúar á þessu ári þegar teknar voru saman skráningar í deildabikarinn, Lengjubikarinn, sem fer iðulega af stað í byrjun febrúar,“ skrifar Bjarni í Morgunblað dagsins.
„Eftir því sem undirritaður kemst næst starfar því engin kona í dag sem aðalþjálfari þótt það séu vissulega nokkrar sem eru aðstoðarþjálfarar, kvennamegin í það minnsta.“
Bjarni telur upp nokkrar konur sem verið hafa í þjálfun en hafa hætt. „Edda Garðarsdóttir, Guðrún Jóna Kristjánsdóttir, Helena Ólafsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir hafa að vísu allar þjálfað en gera það ekki í dag, sem er ansi sorgleg þróun.“