Virgil Van Dijk, leikmaður Liverpool, þarf að fara í aðgerð á hné vegna meiðsla sem hann hlaut í leik gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í um helgina. Þetta staðfestir Liverpool á heimasíðu sinni. Van Dijk skaddaði liðbönd í hné eftir tæklingu frá Jordan Pickford, markverði Everton en mikil reiði er í herbúðum Liverpool með þessa tæklingu.
Ekki er ljóst á þessari stundu hversu lengi Van Dijk verður frá en það gæti verið töluvert langur tími og líklega spilar hann ekki meira á þessu tímabili.
Jurgen Klopp stjóri Liverpool segir að Van Dijk verði lengi frá en að hann fái allan þann tíma sem hann þarf. „Hann verður lengi fjarverandi,“ sagði Klopp.
„Við erum hérna fyrir hann og hann veit það, við munum bíða eins og góð eiginkona gerir þegar maðurinn fer í fangelsi. Við munum reyna að gera allt fyrir hann.“
„Við finnum til með honum, við vitum að þetta er hörmuleg staða að vera í. Virgil kemst yfir þetta, það er 100 prósent.“