fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
433Sport

Var í útgöngubanni í 10 vikur á Ítalíu

Sóley Guðmundsdóttir
Laugardaginn 11. júlí 2020 13:50

Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í byrjun árs fór landsliðskonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir til ítalska knattspyrnuliðsins AC Milan á láni. Dvöl Berglindar hjá liðinu tók óvænta stefnu eftir góða byrjun. Hún skoraði fimm mörk í fimm leikjum áður en heimsfaraldur COVID-19 skall á.

Tvö mörk í fyrsta leik

„Ég skoraði tvö mörk í fyrsta leiknum sem var frábært. Það var gott að brjóta ísinn á þennan hátt,“ segir Berglind Björg um upphaf dvalar sinnar hjá AC Milan. Þetta virtist vera upphafið að fjörugu tímabili á Ítalíu sem átti ekki að ljúka fyrr en í maí.

„Við áttum að spila útileik í lok febrúar og vorum á hóteli. Við fáum þær fréttir að eitthvað sé í gangi og við megum ekki fara út af hótelinu. Næst fáum við fréttir um að búið sé að fresta leiknum. Við áttum að fara heim til okkar í sóttkví og vera þar í einhvern tíma. Enginn vissi hvað var í gangi né hversu lengi þetta myndi standa yfir,“ segir Berglind.

Missti af landsliðsferð

Í byrjun mars tók íslenska landsliðið þátt í æfingamóti á Spáni. Berglind var í hópnum og var að undirbúa sig fyrir mótið. Þá fékk hún símtal frá lækni landsliðsins sem tilkynnti henni að hún gæti ekki tekið þátt í verkefninu.

„Þau vildu ekki taka sénsinn vegna þess að það var allt í rugli á Ítalíu. Ég skildi það alveg en það var samt mjög leiðinlegt.“ Berglind æfði í nokkra daga í viðbót með AC Milan áður en hún þurfti að fara aftur í sóttkví.

„Hún bjargaði lífi mínu“

„Þarna skall þetta af alvöru á. Ég þurfti að flytja inn til liðsfélaga míns frá Noregi vegna þess að netið heima hjá mér var eitthvað lélegt og ég var að skrifa lokaritgerð.“ Dvöl Berglindar hjá liðsfélaganum varð lengri en ætlunin var.

„Ég fór til hennar og svo fékk ég skilaboð daginn eftir. Mér var sagt að fara ekki aftur heim. Það mátti hvorki ferðast né keyra þannig að dvöl mín hjá henni sem átti að vera nokkrir dagar varð að tíu vikum.“

Berglind segist fegin að hafa flutt til hennar. „Hún bjargaði lífi mínu. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það hefði verið að vera ein í tíu vikur. Ég veit ekki hvernig það hefði farið með geðheilsuna.“

Vonbrigði í hverri viku

Þarna hafði Berglind farið á sína síðustu æfingu með AC Milan. „Við fengum ekki að fara heim því þjálfararnir héldu alltaf í vonina um að við værum að fara að æfa.“ Upplýsingarnar sem Berglind fékk frá liðinu voru oftast um það bil viku fram í tímann.

„Þau sögðu að við myndum byrja að æfa eftir viku. Næst var sagt að við myndum byrja eftir tíu daga. Það var alltaf verið að halda í vonina. Svona gekk þetta í tíu vikur. Maður varð fyrir vonbrigðum í hverri viku.“

„Ég var bara föst þarna“

Berglind barðist fyrir því að fá að fara heim til Íslands. „Á einum tímapunkti fengum við leyfi til að fara heim en bara í tvær vikur. Það tók því ekki vegna reglna um sóttkví.“ Berglind ákvað því að bíða lengur en fór að skoða flug heim.

„Það var ekkert hægt að fara frá Ítalíu. Lestin gekk ekki og flug voru felld niður. Það var ekki séns að komast burt. Ég var bara föst þarna. Maður fór í gegnum allan tilfinningaskalann.“

Þegar Berglind lítur til baka skilur hún ekki hvernig hún komst í gegnum þetta. „Það var gott að hafa liðsfélaga sinn með sér. Við vorum í rauninni ekki að gera neitt á daginn en við gerðum þetta saman. Við reyndum að halda okkur í formi með heimaæfingum. Við vorum með bílakjallara þar sem við gátum hlaupið í hringi. Maður varð samt mjög þreyttur á því.“

Hent út úr matvörubúðinni

Ferð í matvörubúðina var orðin hápunktur dagsins hjá Berglindi. „Maður átti að fara sem minnst í búðina en við reyndum að fara á hverjum einasta degi til að ná að hreyfa okkur. Við tókum oft langan göngutúr í búðina. Fyrir utan búðina var um það bil tveggja tíma bið, það stytti okkur stundir,“ segir Berglind hlæjandi.

Lögreglan fylgdist með ferðum fólks á Ítalíu. „Maður þurfti að sýna annaðhvort kassakvittun eða eitthvað sem sannaði að maður var að fara út í búð, annars fékkstu sekt.“ Berglind lenti aldrei í veseni en var þó einu sinni hent út úr búðinni.

„Aðeins einn frá hverju heimili mátti fara út í búð. Þegar við fórum út í búð þóttumst við ekki þekkja hvor aðra. Í eitt skiptið ætlaði ég að vera lúmsk og labbaði fyrir aftan hana og hvíslaði einhverju að henni. Starfsmaður í búðinni sá að við vorum að tala saman. Mér var hent út og ég þurfti að bíða fyrir utan þar til hún kláraði innkaupin.“

Rýrnaði í útgöngubanninu

Loks kom að heimför og gekk ferðalagið vel. Eftir tveggja vikna sóttkví við heimkomu gat Berglind farið á fótboltaæfingu. Hún hefur byrjað tímabilið vel með Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni þrátt fyrir tíu vikna útgöngubann og tveggja vikna sóttkví. „Þegar ég kom heim var ég búin að rýrna mjög mikið, missa mikinn vöðvamassa og léttast.“

Berglind lagði mikið á sig til að komast í gott form fyrir tímabilið. „Ég var í góðu sambandi við styrktarþjálfarann hjá Breiðablik við heimkomu. Ég æfði tvisvar á dag og ætlaði mér að komast í sem best form fyrir mótið. Svo byrjuðu æfingar hjá Breiðabliki og Þorsteinn þjálfari og Aron styrktarþjálfari fylgjast vel með. Þetta hefur gengið ótrúlega vel og ég hef sem betur fer sloppið við öll meiðsli. Ég var hrædd um meiðsli eftir að hafa setið á rassinum í tíu vikur.“

Heyrðu af smiti liðsfélaga í fjölmiðlum

Berglind hefur nýlega lokið sóttkví í annað sinn frá því hún kom til landsins eftir að liðsfélagi hennar greindist með COVID-19. „Þetta var mjög óvænt. Við í liðinu heyrðum þetta fyrst í fjölmiðlum áður en við vorum upplýstar um málið. Þetta er bara verkefni sem við tæklum allar saman.“

Hún er ekki hrædd um að sóttkvíin muni hafa slæm áhrif á liðið. „Tvær vikur eru ekkert það langur tími, það er engin að fara að detta úr formi. Við fáum æfingaplan frá Breiðabliki sem allar munu fara samviskusamlega eftir.“

Lífið ekki sjálfsagður hlutur

Hún telur sig geta dregið ákveðinn lærdóm af undanförnum mánuðum. „Eftir allt þetta hef ég lært að meta lífið öðruvísi. Ég kann betur að meta litlu hlutina og tek lífinu ekki sem sjálfsögðum hlut. Ég hljóma kannski full dramatísk,“ segir Berglind sem hefur talið dagana sem hún hefur eytt í sóttkví. „Ég er búin að vera í sóttkví í um það bil 100 daga af 192 sem eru liðnir af árinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Einkunnir Tottenham og Arsenal – Havertz valinn bestur

Einkunnir Tottenham og Arsenal – Havertz valinn bestur
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Stjarnan tjáir sig eftir ótrúlega umfjöllun blaðamanns: Hótar lögsókn og ásakar hann um lygar – ,,Hef aldrei og mun aldrei gera þessa hluti“

Stjarnan tjáir sig eftir ótrúlega umfjöllun blaðamanns: Hótar lögsókn og ásakar hann um lygar – ,,Hef aldrei og mun aldrei gera þessa hluti“
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

,,Hann má taka því rólega í tveimur leikjum gegn okkur“

,,Hann má taka því rólega í tveimur leikjum gegn okkur“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Messi minnir verulega á sig – Var stórkostlegur í nótt

Messi minnir verulega á sig – Var stórkostlegur í nótt
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Skoraði ekki mark og mistókst að bæta met Henry og Kane

Skoraði ekki mark og mistókst að bæta met Henry og Kane
433Sport
Í gær

Féll í yfirlið á Subway og var fluttur á sjúkrahús: ‘Stóri engillinn’ kom til bjargar – ,,Er allt í lagi með þig!?“

Féll í yfirlið á Subway og var fluttur á sjúkrahús: ‘Stóri engillinn’ kom til bjargar – ,,Er allt í lagi með þig!?“
433Sport
Í gær

England: Chelsea kom til baka á Villa Park

England: Chelsea kom til baka á Villa Park