Arsenal og Manchester United fá líklega Meistaradeildarsæti á silfurfati ef ekki tekst að klára deildina. Ensk blöð segja frá.
UEFA fundaði með með aðildarlöndum sínum á dögunum og þar var málið rætt.
Það er til skoðunar að UEFA taki þá inn félög samkvæmt styrkleikalista sem sambandið heldur úti. Þannig kæmust fjögur efstu félög á þeim lista í Meistaradeildina á næstu leiktíð.
Liverpool og Manchester City færu í Meistaradeildina ef styrkleikalistinn yrði notaður, sömu sögu má segja um Arsenal og Manchester United.
Leicester og Chelsea sem sitja í Meistaradeildarsætum í dag gætu því tapað gríðarlega á því ef deildin á Englandi klárast ekki. Arsenal situr í níunda sæti deildarinnar og á litla sem enga möguleika á að komast í Meistaradeildina ef tekst að klára mótið. United situr í fimmta sæti og á góða möguleika.
Styrkleikalisti UEFA tekur mið af fimm síðustu tímabilum í Evrópukeppnum.