Ensk götublöð fullyrða að Manchester United sé skrefi nær því að ganga frá kaupum á Jadon Sancho frá Borussia Dortmund.
Enski kantmaðurinn hefur lengi verið orðaður við United en Dortmund hefur játað því að líklega verði hann seldur i sumar. Sancho er tvítugur enskur landsliðsmaður sem hefur spilað frábærlega fyrir Dortmund síðustu mánuði, talið er að hann muni kosta í kringum 100 milljónir punda.
Graeme Souness, sérfræðingur Sky Sports segir að þessi aðferðafræði United sé ekki rétt.
,,Ég held að þú getir ekki samið um kaup og kjör fyrr en félögin hafa náð saman,“ sagði Souness.
,,Félögin eiga að semja fyrst áður en hitt kemur. Ég efast um að þetta sé rétt.“
,,Ef United er að gera þetta svona, án samnings við Dortmund. Þá mun Dortmund girða niðrum þá þegar félögin setjast að samningaborðinu.“