Knattspyrna er vinsælasta og stærsta íþrótt í heimi, en ýmislegt getur betur farið þegar kemur að regluverkinu í kringum leikinn fagra.
Benedikt Bóas Hinriksson, fréttamaður á Fréttablaðinu bað nokkra sérfræðinga um hugmynd af breytingum á reglum.
,,Ég myndi afnema markspyrnuna. Þegar andstæðingur setur boltann aftur fyrir endamörk myndi markvörður þá taka boltann upp eins og við þekkjum úr handboltanum til dæmis og þyrfti að losa sig við hann á innan við sex sekúndum,“ sagði Hjörvar Hafliðason um málið.
Hjörvar var sjálfur markvörður og segir að þarna geti menn oft byrjað að tefja án þess að tekið sé eftir.
,,Því margir markmenn eru góðir í, og ég var það sjálfur, að gefa sér um mínútu í markspyrnu. Stilla boltanum upp, græja einhvern hól, græja þetta og gera hitt. Svo er aldrei byrjað að spjalda þá fyrr en seint í síðari hálf leik. Ég held að þetta yrði fótboltanum til heilla.“