Tímavélin:
Eiður Smári Guðjohnsen er af mörgum talinn besti leikmaður í sögu Íslands. Hann átti magnaðan 22 ára meistaraflokks feril. Eiður spilaði með ófáum góðum liðum í gegnum tíðina en hann stoppaði lengst hjá Chelsea frá 2000 til 2006.
Eftir dvöl hjá Chelsea samdi Eiður við Barcelona þar sem hann var í þrjú ár. Árin þar á eftir voru þó ansi skrautleg. Framherjinn upplifði erfiða tíma hjá Monaco tímabilið 2009/2010 en það var fyrsti áfangastaðurinn eftir þrjú ár á Spáni. Þar stoppaði Eiður stutt og var lánaður til Tottenham. Hann lék alls 14 leiki fyrir liðið og skoraði eitt mark.
Það skref sem Eiður sér mest eftir á ferlinum kom eftir eitt ár hjá Monaco. Hann skrifaði þá undir hjá Stoke City. Eiður var á besta aldri þegar hann fór til Stoke árið 2010. Hann fagnaði þrítugsafmæli sínu í september.
Eiður spilaði aðeins fimm leiki fyrir Stoke en fékk ekki að byrja einn einasta leik. Í janúar var hann lánaður til Fulham. Það er þó varla hægt að kenna honum um hvernig dvölin hjá Stoke endaði en það var Tony Pulis sem fékk hann til félagsins. Pulis var þjálfari Stoke frá 2002 til 2005 og tók svo aftur við 2006 og var við stjórnvölin til ársins 2013.
Gat valið önnur lið en ákvað að treysta Pulis:
Það er skref sem Eiður sér mikið eftir. Bæði Tottenham og West Ham höfðu einnig áhuga á að fá hann í sínar raðir en hann ákvað að velja Stoke. Tottenham og West Ham vildu fá Eið undir lok félagaskiptagluggans en það var Pulis sem náði að sannfæra hann um að ganga í raðir Stoke og lofaði öllu góðu. Eiður tók á sig mikla launalækkun eftir að hafa skrifað undir hjá Stoke og var mjög bjartsýnn áður en martröðin hófst.
Eiður ræddi samband sitt við Pulis í þáttaröðinni Gudjohnsen en hann gerði mikið til að fá íslenska landsliðsmanninn áður en allt fór úrskeiðis. „Stoke var eitt af þeim liðum sem var tilbúið að borga launin mín. Ég var samt mjög efins og sat inn á skrifstofu þangað til fimm mínútur voru þar til að félagaskiptaglugganum var lokað,“ segir Eiður Smári um hvenær hann tók ákvörðunina að fara til Stoke.
„Tony Pulis fann að ég var efins og reif mig þá fram á gang og sagði að ég yrði aðalmaðurinn. Ég var það sem liðið þurfti. Hann sannfærði mig um að ég væri gæinn sem hann vantaði í liðið.“
„Ég sé mikið eftir þeirri ákvörðun að hafa farið í Stoke. Það hefur ekkert með félagið að gera, það var bara þannig að samband mitt við þjálfarann dó eftir korter.“
„Ég beið eftir því að komast heim. Ég fór yfir jólatímann og ræddi við hann um lítinn spiltíma. Hann sagði að þetta hefði ekki virkað. Ég stóð upp og barði í borðið.“
„Þetta er í fyrsta sinn á ævinni þar sem ég hef hótað því að hætta að mæta. Ég sagðist ætla að hætta að spila varaliðsleiki og ætlaði ekki að mæta æfingar. Ég borgaði sjálfur pening til Stoke til þess að komast í burtu.“
Þolir ekki Íslendinga og vildi frekar nota veikan mann í byrjunarliðinu:
Pulis er oft ásakaður um það að ‘hata’ íslenska leikmenn og hefur þjálfað ófáa menn landsins í gegnum tíðina.
Hannes Þorsteinn Sigurðsson, Pétur Hafliði Marteinsson, Þórður Guðjónsson, Tryggvi Guðmundsson og Stefán Þór Þórðarson eru á meðal þeirra sem upplifðu slæma tíma hjá Stoke undir Pulis.
Pulis var svo lítill aðdáandi Eiðs að hann vildi frekar nota veikan Kenwyne Jones í deildarbikarnum gegn West Ham í 3-1 tapi.
,,Kenwyne vildi ekki spila en ég stappaði í hann stálinu og lét hann spila. Hann var sveittur og kaldur og sagðist hafa verið slappur í viku,“ sagði Pulis eftir tapið.
Eiður byrjaði leikinn á varamannabekknum og kom inná á 58. mínútu leiksins. Af einhverjum ástæðum taldi Pulis það sniðugra að byrja með mann sem var ekki í standi til að spila.
Þrátt fyrir það þá neitaði Pulis fyrir það að Eiður væri á förum í janúar. Hann tjáði fjölmiðlum að Eiður gæti enn spilað stórt hlutverk á tímabilinu. ,,Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri af þessu. Við þurfum á öllum okkar leikmönnum að halda,“ sagði Pulis er hann var spurður út í mögulega brottför Eiðs en Eiður losnaði skömmu síðar frá Stoke.