

Paul Merson, fyrrum knattspyrnumaður og sjónvarpsmaður í dag hefur rætt opinberlega um andleg veikindi sín. Hann segir útgöngubann á Englandi og mikla eingangrunn vegna kórónuveirunnar, reynast sér erfitt verkefni.
Merson sagði frá því fyrir ári síðan að hann væri að glíma við þunglyndi, hann var spilafíkill og alkóhólisti. Hann hafði íhugað að taka eigið líf. Merson er hættur að neyta áfengis í dag en upplifir erfiða tíma þessa dagana. ,,Þegar þú glímir við andleg veikindi, þá viltu ekki lenda í svona einangrun,“ sagði Merson.
,,Ég er með tvo krakka, tveggja og fimm ára sem halda mér uppteknum. Ég sakna þess að starfa ekki í kringum fótboltann.“
,,Þegar mér líður illa, þá hef ég fótboltann til að létta mér lundina. Þú verður að fylla upp í tómarúmið.“
,,Ég er núna 52 ára, ég er að læra á tæknina og að hringja myndsímtöl. Þetta hefur verið mjög erfitt, margir mjög erfiðir dagar.“