Arturo Diaconale, opinber talsmaður Lazio, hefur gagnrýnt Cristiano Ronaldo sem og ítölsk stjórnvöld á erfiðum tímum.
Diaconale er óánægður með það að Ronaldo hafi fengið leyfi til að ferðast erlendis en hann er leikmaður Juventus og er í Portúgal þessa dagana.
Það er ekkert ítalskt félag sem æfir vegna kórónaveirunnar og eru leikmenn heima hjá sér í einangrun.
Það sama má þó ekki segja um Ronaldo en í gær birtust myndir af honum á æfingu utandyra í Madeira.
Diaconale segir að Ronaldo fái sérstaka meðferð og að hann þurfi ekki að fylgja sömu reglum og aðrir.
,,Staða Lazio hefur alltaf verið sú að við byrjum aftur að spila þegar það er öruggt,“ sagði Diaconale.
,,Ef forsetisráðherra segir að við getum byrjað að æfa eftir 3. maí þá byrjum við að undirbúa það.“
,,Mér líður þó eins og sumir séu í uppáhaldi. Ég er að tala um félög þar sem leikmennn mega ferðast erlendis.“
,,Nú geta þeir snúið aftur heim og farið í einangrun og svo byrjað að æfa á sama tíma og leikmenn Lazio.“
,,Munurinn á okkur er að við höfum fylgt þessum reglum og verið heima, annað en sumir.“