,,Ég held að fólk muni sjá minna af Jesse á samfélagsmiðlum en það hefur áður gert,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United um Jesse Lingard. Miðjumaðurinn hefur fengið harkalega gagnrýni síðustu mánuði.
Hann spilar framarlega á vellinum en hefur ekki skorað eða lagt upp í langan tíma, Solskjær telur að Lingard sé að vinna í sjálfum sér til að komast aftur í gang. ,,Hann hefur sett hausinn niður, hann leggur mikið á sig til að verða sá Jesse sem ég þekki.“
,,Jesse hefur farið upp og niður, við sáum gegn Manchester City og Tottenham hversu mikilvægur hann getur verið. Við viljum sjá hann skora og leggja upp, það hleypur enginn meira en Jesse. Hann er frábær í að pressa og er líflegur karakter.“
Hann ræddi um hvað hann vill sjá leikmenn sína gera við samfélagsmiðla. Lingard hefur verið harkalega gagnrýndur fyrir að gera lítið innan vallar á sama tíma og hann er mikið á samfélagsmiðlum. ,,Það er hluti af því að vera leikmaður Manchester United, að koma vel fyrir.“
,,Það er mikilvægt að leikmenn komi vel fyrir og séu jákvæðir, ég ræði við leikmenn um hvernig þeir geri þessa hluti. Ég er ekki á samfélagsmiðlum, þetta er önnur kynslóð.“