Íslenska karlalandsliðið vann gríðarlega mikilvægan sigur í dag er liðið mætti Albaníu í undankeppni EM.
Leikur dagsins var á Laugardalsvelli og höfðu strákarnir okkar betur með einu marki gegn engu.
Það var Jóhann Berg Guðmundsson sem skoraði markið eftir frábæran sprett í fyrri hálfleik.
Þetta var annar sigur Íslands í riðlakeppninni og er liðið nú með sex stig eftir sigra gegn Andorra og svo Albaníu.
Hér má sjá það góða og slæma úr leik dagsins.
Plús:
Markið sem Jóhann Berg Guðmundsson skoraði var geggjað, hann vill helst skora falleg mörk þegar hann gerir það fyrir landsliðið.
Með Hannes Þór Halldórsson, Kára Árnason og Ragnar Sigurðsson, þá erum við ansi góðir í að verjast föstum leikatriðum.
Hjörtur Hermansson komst fínt frá sínu hlutverki í hægri bakverði, hans fyrsti alvöru landsleikur. Gæti nýst þarna til framtíðar.
Sigurinn er afar mikilvægur, hann gefur liðinu og Erik Hamren vonandi mikið sjálfstraust. Hlutirnir mjakast í rétta átt.
Mínus:
Það er bagalegt hversu miklar rækjusamlokur íslenskir stuðningsmenn eru, vildu allir vera með þegar liðið var á flugi. Þegar á móti blæs setjast rækjusamlokurnar í sófann heima og mæta ekki á völlinn. Lélegt
Spilamennska liðsins í dag var ekkert sérstök, liðið átti ekki marga góða spilkafla, það gekk illa að halda í boltann.
Viðar Örn Kjartansson er frábæra markaskorari en það er spurning hvort hann geti spilað einn frammi með íslenska liðinu. Heldur bolta ekki vel, Viðar hentar best þegar lið hans heldur vel í bolta og hann getur fundið sér réttar stöður í teignum.
Rúnar Már Sigurjónsson var að koma úr erfiðu tímabili í Sviss, það sást á leik hans. Hann er að auki ekkert sérstaklega hættulegur sem vinstri kantmaður.