Þórsarar spila með upphafsstafi Baldvins Rúnarssonar á treyjunni það sem eftir er leiktíðar. Baldvin féll frá í síðustu viku eftir harða baráttu við krabbamein.
Andri Yrkill Valsson, blaðamaður Morgunblaðsins skrifaði fallega grein í blaðið í vikunni um Baldvin. Þar talar hann um fólkið sem styður við íþróttafélög sín, mikilvægi sjálfboðaliða og stuðningsmanna.
Andri skrifar pistilinn til minningar um Baldvin, 25 ára Akureyringinn sem lést um helgina. Baldvin hafði háð harða baráttu við krabbamein til margra ára.
„Á sunnudaginn var lék knattspyrnulið Þórs með sorgarbönd til minningar um Baldvin Rúnarsson sem lést á föstudag eftir erfið veikindi, aðeins 25 ára gamall. Til greina kom að fresta deildarleik Þórs og Þróttar, en eins og sagt er frá á heimasíðu Þórs þá sneru leikmenn bökum saman og sögðu: „Vinnum leikinn fyrir vin okkar og félaga Baldvin Rúnarsson.“
Leikmenn Þór fögnuðu mörkunum með því að benda til himins, sigurinn gegn Þrótti var fyrir Baldvin.
„Það var fallegt að sjá hvernig leikmenn minntust hans, fögnuðu mörkum sínum með því að benda til himins og tileinkuðu honum sigurinn. „Við tókum það með inn á völlinn í dag sem hann kenndi okkur með lífinu. Hann gafst aldrei upp,“ sagði Jónas Björgvin Sigurbergsson eftir leik.“
Treyjuna má sjá hér að neðan.