,,Mér gekk persónulega vel í flestum leikjum,“ sagði varnarjaxlinn, Ragnar Sigurðsson um tímabilið sem var að klárast í Rússlandi, Ragnar er einn allra mikilvægasti leikmaður Rostov þar í landi.
Ragnar á ár eftir af samningi sínum og mun halda áfram þar, hann er mættur heim til að hjálpa íslenska landsliðinu að taka sex stig, gegn Albaníu og Tyrklandi í undankeppni EM. Fyrri leikurinn er gegn Albaníu á laugardag.
,,Við erum heppnir með veðrið hérna á sumrin, með fullan völl hérna og allt brjálað, það er ógeðslega gaman.“
Í fyrsta sinn í mörg ár er ekki uppselt löngu fyrir landsleiki, íslenska þjóðin virðist ekki jafn áhugasöm og áður. Landsliðsmenn vita af því.
,,Við kláruðum þetta gegn Andorra mjög vel, það bjóst enginn við sigri gegn Frökkum. Það er búið að vera neikvæðni og við þurfum að þagga niður í henni, á laugardag og þriðjudag.“
Viðtalið við Ragnar er í heild hér að neðan.