Sepp Blatter, fyrrum forseti FIFA, er upptekinn þessa dagana en hann á í hörðum deilum við sambandið.
Blatter tekur nú út sex ára bann frá fótbolta sem hann var úrskurðaður í fyrir um fjórum árum síðan.
Blatter hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og neitar að hafa tekið við mútum eða slíku þegar hann sat í forsetastólnum.
Hann telur að FIFA skuldi sér níu milljónir punda en er tilbúinn að láta það eiga sig ef hann fær úrin sín aftur.
Blatter skildi ófá úr eftir á skrifstofu sinni í höfuðstöðvum FIFA og heimtar nú að hann fái safnið sitt aftur.
Blatter opnaði sig um málið í samtali við the New York Times og segir það vera mjög persónulegt og að hann vilji skilja sáttur frá borði.
Talið er að safnið kosti í kringum 300 þúsund pund en Blatter má sjálfur ekki koma nálægt sinni fyrrum skrifstofu eftir bannið.