Kolbeinn Sigþórsson samdi við lið AIK í Svíþjóð fyrir þetta tímabil en hann kom til félagsins á frjálsri sölu.
Kolbeinn hefur verið mikið meiddur síðustu ár og var leystur undan samningi hjá Nantes í Frakklandi.
Hann ræddi við Aftonbladet í Svíþjóð í dag og greinir þar frá því að hann hafi fengið tilboð frá Asíu.
Það er ljóst að Kolbeinn hefði þénað mun hærri upphæð í Asíu en hann er ekki reiðubúinn að kveðja Evrópu strax.
,,Já ég fékk þónokkur tilboð. Ég var með þann möguleika á að fara til Asíu en mér finnst ég enn geta lagt mitt af mörkum í Evrópu,“ sagði Kolbeinn.
,,Ég er enn á góðum aldri og tel að ég geti komist á þann stað sem ég var á áður.“
,,Ég sé þetta sem skref upp á við. Tækifæri fyrir mig til að endurbyggja. Síðasta tækifærið til að spila í bestu deildunum.“