Gilles Mbang Ondo, leikmaður Þróttar Vogum, var óánægður með færslu sem var birt á Twitter í gær.
Fótbolti.net fjallar um málið í dag en Ondo ásakar Óskar Smára Haraldsson, leikmann Álftaness, um kynþáttafordóma.
Óskar birti mynd af þeim Pape Mamadou Faye og Ondo í gær en þeir leika báðir með Þrótti í dag.
,,Úlfur Blandon þjálfari Þrótt Voga: „átti reyndar von á því að standið væri aðeins….. beeeetra,“ skrifaði Óskar við færsluna.
Hann ásakar þar því þá Ondo og Pape um að vera í slæmu líkamlegu standi og var sá fyrrnefndi ósáttur við þau ummæli.
,,Twitter færsla dagsins í gær voru tveir svartir leikmenn sem eru ekki í formi, ég og Pape Mamadou Faye og það fær alla til að hlæja,“ skrifaði Ondo.
,,Það er svo fyndið, ég er ekki viss um að þetta væri svo fyndið ef þetta væru tveir íslenskir leikmenn en mjög fyndið auðvitað þegar þetta eru (tveir apar) eins og í dýragarðinum.“
,,Það er fyndið um allt land! Það er árið 2019, hættu þessu herra Óskar Smári Haraldsson, leikmaður Tindastóls, ég þekki þig ekki maður! Mér finnst þetta ekkert fyndið.“
Í frétt fótbolta.net er svo greint frá því að Óskar hafi beðist afsökunar á ummælunum og segir þau hafa verið barnaleg.
Hann hafði samband við bæði Ondo og Pape til að biðjast afsökunar en þvertekur fyrir það að um kynþáttafordóma hafi verið að ræða.