Stuðningsmenn Liverpool eru reiðir þessa stundina þrátt fyrir að hafa tryggt sér sæti í úrslitum Meistaradeildarinnar á þriðjudag.
Liverpool vann stórkostlegan 4-0 sigur á Barcelona á Anfield og fer áfram þrátt fyrir að hafa tapað fyrri leiknum 3-0.
Það er komið í ljós að Liverpool mun aðeins fá rúmlega 16 þúsund miða á úrslitaleikinn sem fer fram á Wanda Metropolitano leikvanginum í Madríd.
Það er heimavöllur Atletico Madrid en hann tekur 67 þúsund manns í sæti og er miðaverð fyrir stuðningsmenn Liverpool frá 80 pundum upp í 530 pund.
UEFA fær að heyra það hressilega fyrir þessa ákvörðun og segja stuðningsmenn að hún sé til háborinnar skammar, að gefa ekki fleiri miða.
Tottenham mun leika við Liverpool í úrslitaleik keppninnar og mun fá svipað marga miða en restin verður fyllt af hlutlausum knattspyrnuaðdáendum.