Margir stuðningsmenn Tottenham og Liverpool skoða það nú hvort þeir komist á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, þar sem þessi tvö lið eigast við.
Leikurinn fer fram 1. júní í Madríd, áhugaverð rimma tveggja liða frá Englandi
Þeir sem ætla sér á leikinn þurfa að eiga ágætis sjóð, það kostar nefnilega helling af aurum að fara á leikinn.
Miðar á leikinn eru dýrir, enda eftirspurnin mikil. Erfitt er að fá hótel í Madríd og verðið á flugi hækkar og hækkar.
,,Mér datt í hug að bregða mér til Madrid 1. júní og horfa á Liverpool-Tottenham. Allir venjulegir miðar eru uppseldir en ég sé ekki betur en enn sé hægt að kaupa miða sem fylgir eitt kampavínsglas,“ skrifar Illugi Jökulsson á Facebook síðu sína.
Illugi hugsaði með sér að í versta falli myndi hann nú bara sturta niður kampavíninu.
,,Nú, jæja, hugsaði ég, ég get þá alltaf hellt kampavíninu í blómapott ef það er bragðvont, og hófst handa um að skoða miðatilboðið betur. Þegar ég sá að miðinn kostaði 945.300 krónur, þá hætti ég við og ákvað að horfa bara á leikinn á hlaupabrettinu í ræktinni eins og venjulega. Það voru þessar 300 krónur sem gerðu útslagið.“