Gunnar Nielsen, markvörður FH hefur fullt traust frá Ólafi Kristjánssyni, þjálfara liðsins. Markvörðurinn gerði sig sekan um mistök, í marki Víkings í síðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar.
Gunnar gerði sig sekan um mistök, sem mikið hefur verið fjallað um. Ólafur segir að öll umræða í dag sé í ökkla eða eyra.
,,Það þarf helst allt að vera í efsta stigi í dag, þegar menn eru að fjalla um þetta. Þá er það í ökkla eða eyra,“ sagði Ólafur við Facebook síðu FH í dag.
Ólafur segir að það sé ekki hægt að dæma markvörð, út frá einum mistökum.
,,Mér finnst þú ekki getað dæmt leikmann út frá einum einstökum mistökum, hann veit það sjálfur á að hann átti að grípa þennan bolta. Ég held að það séu ekki miklar líkur á að svona atvik komi upp í bráð.“
Það er eðlilegt að gera mistök að mati Ólafs, það sem skipti máli, er hvernig menn bregðast við.
,,Þetta snýst ekki um að gera mistök eða gera ekki mistök, þetta snýst um hvernig menn bregðast við því. Ef að það eru einhverjir sem fara í gegnum lífið án mistaka, þá er það bara fínt. Ég held að við flest, í leik eða starfi, misstígum okkur. Við þurfum að styðja hann, hann er góður drengur og markvörður. Hann er okkar markvörður númer eitt.“
Viðtalið við Ólaf má sjá hér að neðan.