,,Er það venjan að fyrrverandi formenn knattspyrnudeilda fylgi liðum frá velli og inn í klefa eftir leik? Og gargi note bene í leiðinni svo mikið á fréttamann og viðmælanda um alvöru menn sem ekki séu með strik í klofinu að það er ekki hægt að byrja viðtalið?,“ skrifar Edda Sif Pálsdóttir, fréttakona á RÚV á Twitter í dag.
Edda er þar að tala um Jón Rúnar Halldórsson, fyrrum formann knattspyrnudeildar FH. Jón lét af störfum í vetur eftir að hafa unnið magnað starf fyrir félagið. Þrátt fyrir að vera hættur er Jón mættur á alla leiki FH.
,,Ég er Jón Rúnar Halldórsson, hvort ég sé fyrrverandi formaður eða núverandi skiptir þar engu. Ég öskraði ekki. Ég gat ekki séð að viðtalið væri í gangi. Ég sagði að menn eigi að kvarta yfir aðstæðum sem eru óboðlegar, enda eru þær óboðlegar,“ sagði Jón Rúnar um málið við 433.is
Leikurinn sjálfur fór fram á gervigrasi í Laugardal og telur Jón að það séu óboðlegar aðstæður en hann sjálfur er mikill gras maður ef þannig má að orði komast.
Edda segir hann hafa öskrað í átt að sér þegar hún var að taka viðtal eftir leik Víkings og FH í Pepsi Max-deild karla i gær. Jón er ástríðufullur en fleiri fréttamenn blanda sér í umræðuna og telja að Jón hafi fengið að ganga of langt í mörg ár.
,,Mjög sérstakt að félögin leyfi þessum eina áhorfanda að fara ítrekað inn á lokað svæði. FH, Valur og Víkingur öll búin að leyfa þetta,“ skrifar Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdarstjóri Fótbolta.net og stuðningsmaður FH.
Foringinn á Vísir.is, Henry Birgir Gunnarsson leggur einnig orð í belg. ,,Ekki síður sérstakt að þessi ágæti og áhugasami áhorfandi sjái nákvæmlega ekkert að því að hann sé í þessum göngutúrum á leikjum.“
Hafliði bendir á að Jón Rúnar sé fyrsti einstaklingurinn sem hafi fengið að fara fram fyrir auglýsingaskiltin á Hlíðarenda í síðustu viku. ,,Fyrsti áhorfandinn sem fær að vera fyrir innan auglýsingaskiltin á Hlíðarenda allavega,“ skrifar Hafliði og Henry svarar. ,,Þetta er svo stórkostlegt..“