Það fór fram einn leikur í Pepsi Max-deild karla í kvöld en um var að ræða lokaleik 2. umferðar.
Víkingur Reykjavík fékk þá FH í heimsókn en leiknum lauk með 1-1 jafntefli á Eimskipsvellinum.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Víkingar eru með ungt og skemmtilegt lið og voru alls ekki hræddir við að spila sinn eigin bolta í kvöld gegn stórliði FH.
Víkingar hafa byrjað tímabilið gegn Val og FH, jafntefli úr báðum leikjum sem eru svo sannarlega ásættanleg úrslit.
Það má einnig hrósa FH fyrir svarið í seinni hálfleik. Voru alls ekkert verri aðilinn þó þeir væru manni færri.
Halldór Orri Björnsson skoraði jöfnunarmark FH í kvöld en hann kom inná sem varamaður. Frábær móttaka og frábært slútt hjá Halldóri.
Mínus:
Það er útlit fyrir það að Gunnar Nielsen, markmaður FH sé bara búinn á því. Gerði enn ein mistökin í kvöld sem kostuðu sitt. Mistökin voru nokkur síðasta sumar.
Gunnar missti fyrirgjöf í fyrri hálfleik og fór boltinn beint fyrir fætur Nikolaj Hansen sem þakkaði fyrir sig og skoraði.
Brandur Olsen, þú þarft að hugsa þinn gang. Brandur fékk gult spjald á 11. mínútu leiksins fyrir ansi heimskulega tæklingu. Hann braut svo tvisvar af sér í viðbót og fékk annað gula spjald sitt á 44. mínútu fyrir annað afskaplega vitlaust brot.
Sölvi Geir Ottesen skoraði mark fyrir Víkinga á 53. mínútu leiksins eftir hornspyrnu en það var dæmt af. Ívar dómari sagði að Sölvi hefði brotið á Guðmundi Kristjánssyni en sá dómur var heldur tæpur. Markið hefði mátt standa.
FH fékk betri færi í þessum leik og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Verða að nýta þetta betur.