Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, þurfti að sætta sig við stig í kvöld í leik gegn FH í Pepsi Max-deild karla.
Arnar og félagar voru manni fleiri allan seinni hálfleikinn en Brandur Olsen var rekinn af velli á 44. mínútu.
,,Við vorum eitt núll yfir í hálfleik og manni fleiri, ég get ekki verið sáttur við þetta,“ sagði Arnar við Stöð 2 Sport.
,,Þeir eru með vel mannað lið og eru góðir í fótbolta og þeir refsa okkur. Þeir fá hættulegri færi eftir brottreksturinn.“
,,Við fórum að vera rólegir og værukærir, það vantaði að keyra tempóið upp sem við reyndum í lokin en það var ekki nóg.“
Arnar var svo spurður út í atvik sem átti sér stað í seinni hálfleik er Sölvi Geir Ottesen kom boltanum í netið.
Ívar dómari ákvað að dæma markið af en hann taldi að Sölvi hefði brotið á Guðmundi Kristjánssyni, leikmanni FH.
,,Bara það klassíska, ég sá það ekki. Sölvi kemur á ferðinni og mér fannst þetta vera mark en svo getur komið í ljós að hann hafi brotið á undan.“
,,Mér fannst þetta vera soft. Stigið er allt í lagi en við vorum einum fleiri og vildum pressa á þá. Þeir eru gott lið og kannski er þetta allt í lagi.“