Ella Markham, er 16 ára stúlka í Bretlandi sem hefur mátt lesa ljót skilaboð um sig á samfélagsmiðlum.
Ella er stuðningsmaður Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, hún var mætt á heimaleik liðsins um síðustu helgi gegn West Ham. Þar tapaði hennar lið.
Faðir hennar deildi svo myndbandi á samfélagsmiðlum eftir leik, þar var Ella að dansa eftir tapið. Hann sagði að úrslit leiksins væru ekki það sem væri mikilvægast. Ella er með downs heilkennið.
Hann fór þá að fá haug af ljótum skilaboðum. ,,Veist þú af því að það er eistunum þínum að kenna að hún er með auka litning, hvernig líður þér með það?,“ skrifaði einn.
Margir tóku í svipaðan streng en flestir voru ósáttir með þá sem létu þessi ljótu orð falla.
Forráðamenn Tottenham tóku eftir þessu og ákváðu að gleðja stúlkuna, hún verður lukkudýr á síðasta heimaleik félagsins.
,,Ég hef séð þig dansa eftir leikinn, ég vildi þakka þér fyrir magnaðan stuðning. Ég elskaði þetta,“ sagði stjarna Tottenham, Harry Kane í skilaboðum til Ella.
,,Haltu áfram að dansa, haltu áfram að gera það sem þú gerir svo vel. Ástarkveðjur.“
Faðir hennar, Neil Markham er stoltur. ,,Þetta var frábær dagur fyrir stelpuna, eftir ömurlega helgi. Hún var mjög spennt að sjá þetta. Við tökum þessu tilboði.“