Það er ekkert leyndarmál að gengi Manchester United hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarið.
Frammistaða liðsins batnaði verulega í desember og snemma á árinu er Ole Gunnar Solskjær hafði teki við af Jose Mourinho.
Undanfarnar vikur hefur liðið þó verið á mikilli niðurleið og ljóst að það þarf mikið að gerast í sumar.
United er þessa stundina í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og á leiki gegn Huddersfield og Cardiff eftir.
Solskjær veit manna best hvernig gengi liðsins hefur verið og bíður með það að hleypa mönnum í sumarfrí.
Venjan er að leikmenn kveðji fyrir síðasta leik tímabilsins og fara hver og einn sína leið eftir að leik lýkur.
Solskjær ætlar hins vegar að breyta til og hefur skipað leikmönnum að mæta á fund degi eftir lokaleikinn gegn Cardiff.
Það er ýmislegt sem gæti verið á dagskrá á þessum fundi en nokkrir leikmenn gætu verið að kveðja endanlega er þeir fara annað í sumar.
Það er ekki víst að allir leikmenn taki vel í þessa ákvörðun Solskjær en sumir vilja komast í frí eins fljótt og hægt er eftir ansi slakt tímabil.