Barcelona er í frábærri stöðu í Meistaradeild Evrópu eftir leik gegn Liverpool á Nou Camp í gær.
Um var að ræða fyrri leik liðanna af tveimur í undanúrslitum keppninnar en seinni viðureignin fer fram í Liverpool. Fyrsta mark leiksins gerði Luis Suarez fyrir heimamenn gegn sínum fyrrum félögum í Liverpool. Suarez potaði boltanum í netið eftir fallega sendingu Jordi Alba.
Í seinni hálfleik var röðin komin að Lionel Messi sem bætti við tveimur mörkum fyrir þá röndóttu. Seinna mark Messi var eitt af mörkum ársins en hann sneri boltann stórkostlega í markmannshorn Alisson Becker beint úr aukaspyrnu. Liverpool fékk dauðafæri til að laga stöðuna stuttu eftir mark Messi en inn vildi boltinn ekki og lokastaðan 3-0 á Nou Camp.
Á meðan leikurinn var í gangi var brotist inn hjá Arthur, leikmanni Barcelona. Bróðir hans var heima á meðan leiknum stóð.
Innbrotsþjófarnir ógnuðu honum með skrúfjárni og tóku á brott Rolex úr og aðra skartgripi. Lögreglan í Barcelona leitar nú að tveimur aðilum, sem grunaðir eru um verknaðinn. Arthur var ónotaður varamaður í leiknum.