Valur er úr leik í Mjólkurbikar karla eftir leik við FH á heimavelli í kvöld en spilað var á Hlíðarenda.
FH gerði sér lítið fyrir og komst í 2-0 áður en heimamenn náðu að minnka muninn í með marki frá Birni Snæ Ingasyni.
Þeir Jakup Thomsen og Atli Guðnason gerðu mörk FH sem vinnur góðan 2-1 sigur og fer í næstu umferð.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Leikur FH var afar öflugur, þá sérstaklega sóknarlega. Færslurnar voru góðar og hreyfðu þeir varnarmenn Vals til og frá, er handbragð Ólafs Kristjánssonar, loks að ná almennilega í gegn. Veit á gott.
Jónatan Ingi Jónsson, kantmaður FH hefur byrjað sumarið frábærlega. Var frábær í dag og getur náð aftur út í atvinnumennsku, haldi hann svona áfram.
Atli Guðnason er einstakur leikmaður, hann skoraði gott mark í dag. Atli hefur frá árinu 2004 spilað með meistaraflokki en virðist alltaf finna hungrið til að gera vel.
Mínus:
Sóknarleikur Vals er fullur af tilviljunum, þá eru kantmenn liðsins í tómu veseni. Þeir Emil Lyng og Kaj Leo í Bartolsstovu byrja sumarið illa, og þurfa að gefa hressilega í.
Hannes Þór Halldórsson og varnarlína Vals verða að ná betur saman, blaðamaður telur að Sebastian Hedlund verði að koma inn í hjarta varnarinnar, svo að allt smelli.
Gunnar Nielsen markvörður FH hefði átt að verja mark Vals, hann þarf að stíga upp eftir slakt tímabil í fyrra.