Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, sá sína menn vinna góðan sigur í kvöld gegn Íslandsmeisturum Vals.
FH vann 2-1 sigur á Val á Hlíðarenda og sló Val um leið úr leik í Mjólkurbikarnum.
,,Þetta var kaflaskipt. Í fyrri hálfleik gerðum við frábærlega að halda boltanum og spila inn í holurnar og götin í Valsliðinu,“ sagði Ólafur.
,,Við náðum að stjórna tempóinu, við vorum bæði rólegir og fengum þá út að hlaupa til að brjótast í gegnum þá á köntunum.“
,,Við vörðumst vel, tókum hlaupin frá Gary í burtu. Við díluðum vel við djúpu sendingarnar frá Petry, Birkir Már, við héldum honum ágætlega í skefjum.“
,,Logi á svolítið stressaða hreinsun í þeirra marki og þá dettur boltinn út en þegar hann var niðri á jörðinni þá var það hættulegra en í loftinu.“
,,Þetta er ekkert statement öðruvísi en það að FH er búið að vera hér að keppa við Val og fleiri félög. Við höfum verið í smá öldudal og statementið er ekkert fyrir aðra en okkur sjálfa.“
,,Þetta er eins og hundleiðinlegt viðtal við golfara, það er næsta högg og næsta hola og þetta er bara þannig, til að setja saman sigra þarftu að vinna vel og taka næsta leik. Víkingar, það er okkar næsti leikur, þeir voru frábærir gegn Val og jafnvel betri en við.“