Neil Warnock, stjóri Cardiff City, hefur fengið refsingu frá enska knattspyrnusambandinu.
Þetta var staðfest í dag en Warnock var sektaður um 20 þúsund pund eftir ummæli sem hann lét falla í mars.
Warnock var bálreiður eftir leik gegn Chelsea og talaði um dómara á Englandi sem þá verstu í Evrópu.
Enska sambandið tók sinn tíma í að fara yfir málið og ákvað að setja Warnock ekki í hliðarlínubann.
Það vekur gríðarlega athygli að Warnock fékk sjálfur hærri sekt en knattspyrnusamband Svartfjallalands fékk nýlega.
Svartfjallaland var sektað um 17 þúsund pund eftir að stuðningsmenn liðsins voru með kynþáttafordóma í garð leikmanna enska landsliðsins.
Það þykir vera til skammar að sú upphæð hafi verið svo lítil en einnig voru stuðningsmenn Svartfjallalands dæmdir í eins leiks bann og verður næsti leikur liðsins spilaður fyrir luktum dyrum.