Stuðningsmenn ÍBV virðast ekki hafa mikinn áhuga á liði sínu í Peps Max-deild karla, ef marka má áhorfendatölur í fyrstu umferð. 225 voru mættir á leik ÍBV og Fylkis á laugardag, skammarlega lítið í fyrstu umferð mótsins.
Úrslit leiksins munu svo ekki hjálpa Eyjamönnum að fjölga á vellinum, Fylkr vann 0-3 sigur. ,,Ég ætla að fullyrða að þetta sé versta mæting á leik í fyrstu umferð frá upphafi,“ sagði Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net í Innkastinu á vefnum.
Magnús Már Einarsson, sem stýrir vefnum með Elvari segir að Eyjamenn noti þrjár afsakanir til að útskýra mætinguna.
,,Þeir vilja meina að það hafi verið fermingar, jarðarför og að stuðningsmenn Fylkis mættu víst ekki, því það er ekki siglt í Landeyjahöfn. Þetta hafði víst áhrif,“ sagði Magnús um málið í Innkastinu.
Samgöngur í Vestmannaeyjum eru bagalegar nú þegar sumarið er komið, Landeyjahöfn virkar ekki og því er þriggja tíma sigling til Þorlákshafnar, raunveruleikinn.
,,Ég held að þetta tal um stemmningsleysi í kringum liðið, eigi alveg rétt á sér. Það virðist ekki vera mikil gleði:“
Pedro Hipólito tók við þjálfun ÍBV í vetur og er mikið verk fyrir hann og aðra í kringum liðið, að búa til stemmingu og gleði í kringum liðið.