Hamza Choudhury, leikmaður Leicester City, hefur beðist afsökunar eftir ummæli sem hann lét falla árið 2013.
Choudhury er 21 árs gamall í dag og var því aðeins 15 ára er hann birti Twitter-færslu fyrir sex árum.
Choudhury var lítið þekktur á þeim tíma en hann er hægt og rólega að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Leicester í dag.
Færslan var dregin upp á yfirborðið á dögunum og hefur leikmaðurinn neyðst til að biðjast afsökunar.
,,Af hverju eru blökkumenn svona fljótir? Því þeir hægu eru í fangelsi,“ skrifaði Choudhury á sínum tíma.
Hann er sjálfur dökkur á hörund en hefur nú opinberlega beðist afsökunar á þessum ummælum.
,,Ég hef lært mikið sem manneskja á mínum fyrstu árum sem atvinnumaður – svo sannarlega nóg til þess að vita það að þessi ummæli voru særandi og móðgandi,“ sagði Choudhury.
,,Ég bið alla þá sem ég hef móðgað afsökunar – bæði þegar þau voru birt og nú í dag þegar þau komu upp á yfirborðið.“
,,Ég hef þroskast mikið á þessum tíma og hef lært á lífið. Ég sætti mig við það að ég þarf að taka ábyrgð á þessum ummælum og verð betri manneskja fyrir vikið.“