Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United, sá leik liðsins við Chelsea á Old Trafford í dag.
Neville ræddi framherjann Romelu Lukaku eftir leikinn en hann telur að Belginn sé ekki í nægilega góðu standi.
,,Þú horfir á hann í 25 mínútur og það er eins og hann geti gert allt en svo stuttu seinna tekur hann eitt hlaup og er búinn á því,“ sagði Neville.
,,Knattspyrnumenn ættu að þekkja eigin líkama inn og út, þú veist hvenær þú átt að borða og hvenær þú þarft að hvíla þig.“
,,Ég er ekki viss um að hann sé búinn að laga þetta vandamál. Það er eitthvað að.“
Fyrrum knattspyrnukonan Alex Scott tekur undir með Neville og gagnrýnir landsliðsmanninn.
,,Ég veit ekki hvernig við getum setið hérna og reynt að afsaka þetta,“ sagði Scott.
,,Hann veit sjálfur að hann er í engu formi. Hvernig kemst hann upp með það sem atvinnumaður í fótbolta? Líka frá liðsfélögum hans.“