Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, kvartaði yfir dómgæslunni í kvöld eftir leik við KR í Pepsi Max-deild karla.
Stjarnan var 1-0 yfir eftir fyrri hálfleik en fékk á sig vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik er Pálmi Rafn Pálmason féll í grasið.
Rúnar var ekki viss um hvort það hefði verið brot en er sannfærður um að KR hefði aldrei átt að fá aukaspyrnuna sem var dæmd stuttu áður.
,,Þetta er mjög svekkjandi niðurstaða miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Algjörir yfirburðir bæði í fyrri og seinni hálfleik, við vorum óheppnir að skora ekki meira,“ sagði Rúnar við Stöð 2 Sport.
,,Við fáum á okkur ódýrt mark, aðdragandinn var það allavegana. Brynjar Gauti fær á sig fríspark og það var algjör þvæla.“
,,Það er erfitt að spila gegn þéttri vörn en við notuðum fyrirgjafir og þeir voru þéttir. Beitir gerði mjög vel með að grípa inn í, það vantaði herslumuninn.“
,,Þeir fengu ekkert meira en þetta víti, gefins aukaspyrna sem skapar þetta víti er dýrt fyrir okkur.“