Enskir miðlar greina frá því í dag að Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United gæti verið að snúa aftur til félagsins.
Scholes er goðsögn á Old Trafford en hann lék yfir 700 leiki fyrir félagið og vann deildina 11 sinnum.
Undanfarin ár hefur Scholes starfað í sjónvarpi en stoppaði einnig stutt sem stjóri Oldham.
Samkvæmt fjölmiðlum ytra mun United ráða yfirmann knattspyrnumála í sumar í fyrsta sinn í sögunni.
Scholes er talinn vera ofarlega á lista yfir mögulega kandídata en hann gæti þá starfað með fyrrum liðsfélaga sínum, Ole Gunnar Solskjær.
Scholes lagði skóna á hilluna fyrir sex árum síðan en hann er 44 ára gamall í dag og hefur áður hjálpað til í akademíu félagsins.