Ragnar Sigurðsson er í landsliðshópi Íslands sem mætir Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni í næsta mánuði.
Raggi gaf það út eftir HM í Rússlandi í sumar að hann væri búinn að leggja landsliðsskóna á hilluna.
Erik Hamren, nýr þjálfari landsliðsins, hefur þó tekist að sannfæra Ragga um að spila áfram en þeir áttu gott spjall fyrir um viku síðan.
,,Ég hringdi í hann og ræddi málin. Ég sagði honum hver mín ósk væri,“ sagði Hamren í dag.
,,Það mikilvægasta að mínu mati er hans hugarfar. Ég sagði það við suma blaðamenn síðast við vorum hérna að þetta þyrfti að koma frá hans hjarta.“
,,Ég ræddi aðeins einu sinni við hann og Freyr ræddi aðeins við hann líka. Fyrir viku síðan þá var hann að hugsa málið og gaf okkur jákvætt svar. Hann vill mikið vera hérna.“