Menning

Hrottaskapur gegn börnum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 6. september 2017 21:30

Glæpasögur eru margar nokkuð líkar í efnisvali og persónusköpun og gildir einu hvort það eru norrænar glæpasögur eða sögur frá öðrum löndum. Dæmigert er að aðalpersónan sé rannsóknarlögreglumaður með myrka fortíð, einkalífið í rúst og vanhæfur í mannlegum samskiptum. Að söguþráðurinn og morðgátan hverfist um munaðarleysingjahæli og myrk leyndarmál því tengdum er einnig orðið kunnuglegt stef í seinni tíð. Hvort tveggja er til staðar í ensku glæpasögunni Þögult óp eftir Angelu Marsons. Angela þessi hefur skrifað margar glæpasögur en þetta er fyrsta bókin hennar í seríu um rannsóknarlögreglukonuna Kim Stone. Stúlkan sú, 34 ára gömul, er frumlega sköpuð og skemmtileg persóna, og eitt það best heppnaða við þessa sögu.

Höfundi er mikið niðri fyrir þegar kemur að illri meðferð og vanrækslu á börnum og það gefur stundum af sér áhrifamiklar og hjartnæmar lýsingar en stundum er farið yfir strikið og í tilfinningaklámið. Lýsingar á hryllilegu ofbeldi og mannvonsku eru oft subbulegar og innantómar og ná ekki tilætluðum áhrifum. Ekki virðist til í dæminu að beita þeim stílbrögðum að gefa í skyn og láta lesandann nota ímyndunaraflið heldur er keyrt á yfirgengilegum viðbjóði. Persónusköpun á vondu fólki í bókinni er steingeld, höfundi er fyrst og fremst illa við vont fólk en hefur lítinn áhuga á að öðlast skilning á því eða gjörðum þess, enda eru illvirkin svo ofboðsleg að það er ekki hægt að skilja þau.
Verstu kaflarnir í bókinni eru skáletraðar lýsingar morðingjans á sjálfum sér og illvirkjum sínum. Þar sakna ég mjög stílbragðsins íronísk fjarlægð, þegar brenglaðar og siðlausar persónur hafa aðra sýn á sjálfar sig og veruleikann en lesandinn. Hér er engu slíku til að dreifa, illmennið lýsir sjálfu sér samkvæmt staðlaðri greiningu á siðleysingja og sökkvir sér síðan á kaf ofan í subbulegar lýsingar á illvirkjum sínum. Þarna verður skáldskapur bókarinnar afskaplega yfirborðslegur og grunnur, en sálrænt innsæi í persónusköpun er eitt af helstu gæðamerkjum góðs raunsæisskáldskapar.

Sagan er í heild vel fléttuð en fellur í þá algengu gryfju í fléttumetnaði höfundar að verða aðeins of flókin svo lesandinn þarf að hafa fyrir því að skilja allt í stað þess að gleyma sér í spenningi yfir sögulokunum.

Þögult óp er alls ekki leiðinlegur lestur, hún heldur manni vel, en langt frá því að vera eins áhrifamikil og höfundur hefur eflaust ætlað henni. Til þess er hún of yfirborðsleg í skoðun sinni á mannssálinni og of ósmekkleg. Höfundur er stundum eins og gítarleikari með hanska á höndunum þegar spilað er á tilfinningastrengina.

Þess ber þó að geta að bókin hefur selst í yfir milljón eintaka og því eru eflaust margir sem hafa enn meira gaman af henni en þessi lesandi hér, og leiddist honum þó ekki yfir lestrinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 5 dögum

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai
Menning
Fyrir 5 dögum

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður
Menning
Fyrir 9 dögum

Bókin á náttborði Steingerðar

Bókin á náttborði Steingerðar
Menning
Fyrir 10 dögum

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“
Menning
Fyrir 11 dögum

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“
Menning
Fyrir 11 dögum

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?
Menning
Fyrir 13 dögum

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí
Menning
Fyrir 13 dögum

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd