fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Meitlaðar, fyndnar og sársaukafullar sögur

Bókadómur um smásagnasafnið Smáglæpir eftir Björn Halldórsson

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 19. júlí 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maðurinn mun líklega alltaf segja sögur í einhverri mynd en það er ekki sjálfgefið að í framtíðinni verði til sagnaskáldskapur á bókum sem fólk getur speglað líf sitt í. Bóklestur fer minnkandi og það vaxa úr grasi kynslóðir af fólki sem að meirihluta les ekki bækur sér til ánægju. Útbreiddasta form skáldsögunnar í dag er spennusagan og margt er afar vel gert á því sviði, en það sagnaform sem helst hefur átt undir högg að sækja á síðustu áratugum er smásagan. Ég veit ekki hvort það er tilviljun eða merki um nýja hneigð en töluvert hefur komið út af íslenskum smásagnasöfnum undanfarin misseri. Steinar Bragi sendi frá sér stórt og flott smásagnasafn í fyrra, Andri Snær Magnason gaf sömuleiðis út smásagnasafn sem ég hef ekki lesið en hefur mælst mjög vel fyrir og smásagnasafn eftir Friðgeir Einarsson fékk prýðilegar og verðskuldaðar viðtökur. Enn fremur gáfu stórskáldin Þórarinn Eldjárn og Gyrðir Elíasson út smásagnasöfn.

Ný bók eftir óþekktan höfund, Björn Halldórsson, Smáglæpir, sem var að koma út hjá Sæmundi, forlagi Bjarna Harðarsonar á Selfossi, sómir sér vel í þessari óvæntu flóru nýlegra smásagnasafna. Um er að ræða sjö sögur sem gerast í úthverfum höfuðborgarsvæðisins í nútímanum. Þetta eru raunsæisverk í mjög hefðbundnu smásagnaformi, meitluð og beinskeytt. Ljóst er að höfundur er vel að sér um smásagnagerð en auk þess bera sögurnar vitni um að höfundi liggi mikið á hjarta því undir fáguðu og hófstilltu yfirborðinu ólgar sársauki og ástríða; því til viðbótar hefur hann umtalsverða stílhæfileika.

Án þess að hér verði nokkuð fullyrt um áhrif frá einstökum höfundum á Björn Halldórsson þá vekja þessar sögur upp minningar um verk bandaríska höfundarins Raymond Carver sem lést fyrir aldur fram árið 1988 en átti stutt og ódauðlegt blómaskeið sem smásagnahöfundur frá miðjum áttunda áratugnum fram til dauðadags. Í stað hversdagslegra andhetja Carvers úr smábæjum og borgarhverfum verkalýðsstéttarinnar í Bandaríkjunum hittum við hér fyrir Íslendinga nútímans í úthverfum Reykjavíkur og nágrannabæjum, en frásagnartæknin, efnisvalið og stíllinn hljóma stundum saman – að minnsta kosti fyrir augum þessa lesanda sem Carver hefur lengi verið minnisstæður. Þannig kallast fyrsta sagan í bók Halldórs, Barnalæti, skemmtilega á við sögu eftir Carver sem heitir Nobody Said Anything, þó að margt sé ólíkt í sögunum. Viðfangsefni beggja er fjarlægðin á milli annars vegar veraldar barna og unglinga og hins vegar amsturs foreldra þeirra; og í báðum sögum lýstur þessum heimum saman.

Sagan Ef þið hefðuð hringt (skemmtilega Carver-legur titill) er leiftrandi snjöll og kennslubókardæmi um vel heppnaða frásagnartækni í smásögu, hugsanlega best stílaða saga bókarinnar. Sagan sem er bráðfyndin segir frá heimsókn fullorðinna barnabarna til aldraðs ekkils sem er önugur og lokaður. Á örfáum blaðsíðum eru persónur dregnar skýrum dráttum með hlutlausum lýsingum og samtölum. Þess má geta að fínan húmor er víða að finna í þessum sögum þó að umrædd saga sé fyndnust.

Fjölskyldan og erfið samskipti innan hennar eru eitt helsta viðfangsefni bókarinnar. Titillinn Smáglæpir er áhugaverður og á bókarkápu segir að í sögunum séu skoðaðar ákvarðanir sem ekki verða aftur teknar og eftirsjá sem varir út ævina: „Þetta eru smáglæpirnir: tilfinningasárin sem við völdum, tækifærin til að breyta rétt sem við misstum af, orðin sem við létum ósögð.“ Þetta er ágæt lýsing á efni sagnanna en við þetta má bæta að í tveimur sögum kunna að hafa verið framdir stórglæpir. Glæpamenn eru líka ekki furðuverur heldur venjulegt fólk sem á fjölskyldur.

Það eru þekktar dyggðir smásagnahöfundarins að segja mikið í fáum orðum, temja sér hlutlausan frásagnarstíl, draga upp lifandi sviðsmyndir í stað þess að segja frá, setja þröngan efnisramma og hafa fáar persónur. Þegar til lengdar lætur verða allir höfundar hins vegar að brjóta þessar reglur til að forðast einhæfni og endurtaka sig. Lokasaga bókarinnar, Að lemja konur, er flóknust sagnanna þó að hún sé af venjulegri lengd. Sagan virðist vera tilraun til að sýna mótun ofbeldismanns út frá atviki á skólalóðinni í æsku og við sögu koma ýmis önnur samskipti og aukapersónur. Þetta virkaði ekki sannfærandi á mig og tilraun höfundar til að fara gegn venjunni og segja margt í mörgum orðum og mörgum atvikalýsingum fer út um þúfur. Er þetta lokaverk slakasta saga bókarinnar.

En eftir standa sex vel heppnaðar sögur þar sem stundum bregður fyrir meistaratöktum. Það er ánægjulegt að sjá íslensk úthverfi nútímans lifna við í klassísku smásagnaformi og það er hiklaust mikill fengur að þessari bók Björns Halldórssonar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United
EyjanFastir pennar
Fyrir 10 klukkutímum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?