Menning

Bjartur og Ásta Sóllilja

Og hvernig á að skilja bókina um þau?

Ritstjórn DV
Mánudaginn 5. júní 2017 08:00

Einar Kárason skrifar:

Ég skrifaði fyrir fáum vikum grein á þessum vettvangi um skáldsöguna frægu Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness, aðallega þá í tilefni nýendurflutts útvarpsþáttar um staðfræði Sumarhúsa og sveitarinnar þar í kring. Greinin vakti nokkra athygli og fékk umtal, og spilaði þar inn í að skömmu eftir að hún birtist var greint frá því að Ríkisútvarpið og leikstjórinn Baltasar Kormákur væru að hrinda af stokkunum því verkefni að vinna kvikmynd og sjónvarpsþætti upp úr bókinni, og vísaði leikstjórinn í sjónvarpsviðtali af því tilefni meðal annars til nýbirtrar greinar minnar. Og fleiri lögðu orð í belg, ekki síst í bloggi og á samfélagsmiðlum, og meðal annars uppvaknaði umræða um mismunandi túlkun á þessari mögnuðu sögu Halldórs Laxness, en sumir vilja semsé sjá einhvers konar hetju í aðalpersónunni Bjarti í Sumarhúsum; sjálfstæðishetju eiginlega – menn sem vilja fá að ráða einir fyrir sínum málum hæla sér jafnvel af skyldleikanum við þverhausinn Bjart, og rifjað var upp að í umræðunni um alþjóðasamvinnu Íslendinga og hugsanlega aðild að fjölþjóðlegum bandalögum hafa sumir gripið til þeirrar röksemdar að við eigum að vera sjálfstæð og engum háð – eins og Bjartur í Sumarhúsum, sem á þá að vera okkur andleg fyrirmynd. Enda lagði einn helsti baráttumaður gegn hugsanlegri aðild Íslands að ESB líka orð í belg núna um daginn, Páll Vilhjálmsson, sem mér er sagt að sé á launum við að níða niður bandalagið, og sagði þegar kunngjört hafði verið um væntanlegt sjónvarps- og kvikmyndaverkefni Baltasars eftirfarandi orð á bloggi sínu:

„Tvær meginútgáfur eru til af Bjarti í Sumarhúsum, höfuðpersónu Sjálfstæðs fólks. Sú yngri, sem vinstrimenn halda upp á, er Aumingja-Bjartur; ógeðfelldur þrælahaldari, fávís um tilgangsleysi brauðstritsins og steypir öllum nálægt sér í glötun.

Hefur mörgum sinnum verið sett á svið við miklar vinsældir.
Sjálfstætt fólk Hefur mörgum sinnum verið sett á svið við miklar vinsældir.

Mynd: eddi@internet.is tel:+354-6993789

 Eldri útgáfan af Bjarti endurspeglar bókarhluta Sjálfstæðs fólks: Landnámsmaður Íslands, Skuldlaust bú, Erfiðir tímar og Veltiár. Bjartur er í þeirri útgáfu raunsannur fulltrúi margra kynslóða íslenska sveitasamfélagsins sem áttu sér það sameiginlega markmið að fara fyrir búi – verða bændur og húsfreyjur. Átti maður ekki bú var lífshlaupið misheppnað. Nánast var jafnaðarmerki á milli þess að eiga bú og eiga fjölskyldu. Búskussi þótti meiri maður en duglegt hjú. Búið skildi á milli manndóms og fjötra vinnumennsku.

Baltasar er reykvískur kvikmyndagerðarmaður. Um þann hóp segir Óttar Guðmundsson geðlæknir:

Á undanförnum árum hafa ungir kvikmyndagerðarmenn sýnt nokkrar keimlíkar bíómyndir um lífið í litlu þorpi úti á landi. Ungur Reykvíkingur fer í heimsókn til ættingja í afskekktum firði. Þar verður hann vitni að gegndarlausu fylleríi, kynsvalli og venjulega einni jarðarför. […] Þorpsbúar eru einfalt og barnalegt fólk sem verður að hella í sig áfengi til að geta afborið fábreytileikann.

Meiri líkur en minni eru að við fáum Aumingja-Bjart í meðförum Baltasar. Vangefið landsbyggðarfólk er betri söluvara á mölinni en trúverðug lýsing á mannlífi íslensku sveitarinnar forðum daga.“ (Páll Vilhjálmsson 16. maí 2017)

„innanum gorkúlur um hádegisbil“

Fyrir þá sem telja þvermóðsku, stífni og lífsgildishugmyndir Bjarts í Sumarhúsum til fyrirmyndar er rétt að minna á að frá því hann byrjar sitt sjálfstæða hokur í upphafi bókar og þar til henni lýkur tapar hann nokkurn veginn öllu sem hann hefur eignast.

Það er í rauninni ekki til annað svar við svona bulli en að vísa til sjálfrar bókarinnar. Á einum stað þegar langt er á hana liðið segir: „Eyðileikinn er með sínum hætti eingu síður en glaumurinn, margbreytilegur og sögulegur hvar sem lífstóra krokir í heimi, og þessi börn, sem af dularfullum ástæðum voru ekki dáin hér í heiðinni, þau höfðu lifað mörg söguleg tilbrigði hans, ekki aðeins á hátíðum, heldur einnig milli hátíða. Það er mjög fróðlegt að missa móður sína í fyrsta þerriblökrinu á sumrinu, og þegar pabbi fer burt uppúr hvarfi elsta bróðurins, í miðjum hátíðum, þá er það einnig sérkennileg reynsla, eyðileiki nýrrar tegundar, /…/ og þannig kemur móðurleysið einsog skattkrefjandi uppúr minníngunni við burtför föðurins, fár sem faðir, einginn sem móðir, og um hávetur stendur dreingjunum fyrir hugskotssjónum þessi dagur í fyrrasumar, þegar mamma þeirra var lögð á börur útí lambhúsi innanum gorkúlur um hádegisbil, og samt hélt sólin áfram að skína.“ (Bls. 337)

Lífsgildishugmyndir Bjarts

Fyrir þá sem telja þvermóðsku, stífni og lífsgildishugmyndir Bjarts í Sumarhúsum til fyrirmyndar er rétt að minna á að frá því hann byrjar sitt sjálfstæða hokur í upphafi bókar og þar til henni lýkur tapar hann nokkurn veginn öllu sem hann hefur eignast. Báðar eiginkonur hans hafa dáið þar heima, dáið á ömurlegan hátt eftir vonbrigði og mikla kvöl. Flest af börnum hans hafa dáið, við vitum ekki hve mörg, en oft hefur hann farið með litlar kistur niður í kirkjugarð. Einn sonur hans, sem kemst á legg, sturlast og fyrirfer sér, dóttirin hefur hrakist burt; einn sonurinn hefur sloppið því hann kemst til Ameríku; við fáum vísbendingar um að honum hafi farnast vel. Eini sonurinn sem verður eftir hjá Bjarti er sveitarathlægi.

Þó held ég, og þetta er mjög mikilvægt til að skilja Bjart í Sumarhúsum, að tilfinningar hans gagnvart stúlkunni hafi aldrei verið eins og ást föður til dóttur.

Um þetta þarf í rauninni ekki að hafa mörg orð, en það er hins vegar einn túlkunarflötur á sögunni sem ég aðhyllist, en hef þó ekki séð formúleraðan í ritum bókmenntafólks eða fræðimanna, og mig langar til að ræða hér: varpa fram sem mjög sennilegri tilgátu, og þetta snertir tengsl aðalpersóna þessarar mögnuðu bókar, þeirra Bjarts og „dótturinnar“ Ástu Sóllilju.

„Dóttirin“

Ég hef dótturina í gæsalöppum því að þó að Ásta sé auðvitað dóttir Bjarts í vissum skilningi þá eru þau ekki blóðskyld, og það er bæði honum og öllum öðrum kunnugt frá upphafi; konunni Rósu er prakkað inn á hann óléttri eftir að Ingólfur Arnarson Jónsson, sonurinn á Útirauðsmýri, hefur barnað hana. Þegar Rósa deyr en tíkin bjargar barninu til lífs þá fer Bjartur að Útirauðsmýri og vill fá að tala við hreppstjórahjónin, og þá halda þau bæði að hann ætli að fara að tala um að hann eigi ekki þetta barn. En það er öðru nær. Bjartur tekur stúlkunni fagnandi, skírir hana þessu ástsamlega nafni, Ásta Sóllilja, og hún verður hans uppáhaldsbarn. Þó held ég, og þetta er mjög mikilvægt til að skilja Bjart í Sumarhúsum, að tilfinningar hans gagnvart stúlkunni hafi aldrei verið eins og ást föður til dóttur. Hann veit að þetta er barn Rauðsmýrarfólksins, sem hann hefur verið þræll hjá, ríka fólksins í sveitinni, og þetta lífsblóm hans er þá jafnframt einhvers konar herfang; hann bíður eftir að hún verði fullorðin og þá á hún að verða konan í hans húsi. Þannig held ég að verði líka að skilja atvikið þegar þau gista saman í vertshúsinu niðri á Firði og hann snertir hana. Og þannig er einnig rétt að skilja hvernig hann horfir á hana í laumi á kvöldin þegar hún þvær sér fyrir svefninn í baðstofunni, og er að verða fullvaxta.

Afbrýðisemi Bjarts

Hyggst vinna kvikmynd og sjónvarpsþætti upp úr bókinni.
Baltasar Kormákur Hyggst vinna kvikmynd og sjónvarpsþætti upp úr bókinni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar Bjartur fer burt á miðjum vetri, eftir að hafa misst drjúgan hluta síns fjárstofns, til þess að fara í launavinnu niðri á Firði þá kveður hann Ástu Sóllilju eina, með hlýjum orðum og segir að þegar hann komi aftur ætli hann að byggja fyrir hana hús. Og felur henni um leið búsforráð þar heima í fyrsta sinn; hún á að vera húsfreyjan á heimilinu í hans fjarveru, og svo áfram að því er ætla má. Hann sendir í stað sjálfs sín þangað heim mann til að uppfræða börnin, en um hann er talað á einum stað sem: „illræmdan mannaumingja, annálaðan drykkjurút og tugthúslim, sem þaraðauki er hreppsómagi með fullt hús af krökkum og ofaníkaupið hættulega berklaveikur“ (bls. 402). Þannig að þegar sá drykkfelldi mannræfill sem hann sendir í sinni fjarveru til að kenna Ástu Sóllilju og bræðrum hennar flekar stúlkuna, eða hreinlega nauðgar henni, barnar hana og smitar af berklum að auki, þá er hann að leggjast með húsfreyjunni á heimili Bjarts.

Og þarna kemur lykilatriðið, um það hvernig hann bregst við þegar hann fær að vita að hún sé ólétt, í þeim kafla bókarinnar sem er sennilega tragískastur af öllum. Hann bregst ekki við eins og elskandi faðir sem fær að vita að það hafi verið brotið gegn dóttur hans, að hún hafi ratað í mikla ógæfu. Því að þótt Bjartur sé þverhaus, þá hefði hann átt að sjá að glæpur gegn dóttur hans var auðvitað líka glæpur gegn honum sjálfum, og hann hefði líka átt að sjá sök sína í málinu. En það gerir hann ekki, heldur bregst hann við eins og kokkálaður maður hefði gert – hann slær hana og rekur hana á braut. Fullur afbrýðisheiftar, hann hefur verið svikinn, það hefur verið haldið framhjá honum.

Samt slitnar aldrei strengurinn á milli þeirra, þótt hvorugt segist vilja sjá að heyra eða vita af hinu. Hún skírir barnið sem hún eignast Björt, og hann lætur tvisvar bera til hennar ljóðmæli eftir sjálfan sig, og seinna kvæðið ærið fallegt og endar svo:

  „Afturámóti var annað stríð  í einum grjótkletti forðum tíð,  og það var allt útaf einni jurt,  sem óx í skjóli og var slitin burt.  Því er mér síðan svo stirt um stef,  stæri mig lítt af því sem hef,  því hvað er auður og afl og hús  ef eingin jurt vex í þinni krús?  (bls. 479)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af